Facebook icon Twitter icon Forward icon

Skiptinámið til Perú var einstakt tækifæri

Sigríður Halldórsdóttir er að mörgum kunn fyrir störf sín í hinum vinsæla sjónvarpsþætti Landanum sem sýndur hefur verið á RÚV um nokkurt skeið. Það sem fæstir vita kannski er að hún útskrifaðist frá Háskólanum á Bifröst árið 2010 úr HHS eða heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Fréttabréfið tók stutt viðtal við Sigríði og vildi fá að vita hvað hún hefur verið að brasa síðan hún útskrifaðist frá Bifröst.

 

Af hverju valdir þú Háskólann á Bifröst?

Af því að mér fannst HHS námið spennandi og blandan af heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði hljóma virkilega vel. Ég hafði verið í stjórnmálafræði í HÍ árið áður og fann mig ekki alveg þar. Svo bauð Bifröst líka upp á aðeins stærri og meiri upplifun en bara að mæta í tíma og skila verkefnum. Þarna gafst tækifæri til þess að flytja upp í sveit og prófa eitthvað alveg nýtt – og ég var einmitt til í það.

Hvað starfar þú í dag og hvernig kom það til?

Ég er frétta- og dagskrárgerðarmaður á RÚV og starfa aðallega við Landann. Ég var fengin til þess að leysa af í þættinum sumarið 2011, eftir að hafa unnið ýmis störf á Fréttastofu RÚV á árunum á undan. Um veturinn fékk ég svo fasta stöðu í þættinum.

Hvernig hefur HHS námið á Bifröst nýst þér í núverandi starfi?

Það hefur nýst mér akkúrat eins og ég bjóst við að það myndi gera. Ég hafði augastað á því að starfa við fjölmiðla og vissi að þá gæti komið sér vel að vita svolítið um ýmislegt, frekar en allt um eitthvað eitt. Það er einmitt þannig sem mér finnst það hafa komið að gagni. Hagfræði- og stjórnmálafræðiþekking hefur reynst algjörlega nauðsynleg – og svo er heimspekikunnáttan hreinlega mannbætandi.

Hvað er eftirminnilegast frá námsárunum á Bifröst?

Besta ákvörðunin sem ég tók á námsárunum á Bifröst var að fara í skiptinám til Perú haustið 2008. Það er tækifæri sem ég hefði aldrei annars fengið og ég fæ aldrei nógsamlega þakkað. Svoleiðis reynsla hjálpar manni að skilja hvernig heimurinn er saman settur (þó maður komist nú sjálfsagt aldrei alveg til botns í því). Mér finnst að sem flestir ættu að fara í skiptinám og helst langt út fyrir Evrópu.

Eitthvað að lokum?

Já. Ég sakna þess að geta lagt mig á daginn! Það var eitt af því besta við námsárin á Bifröst. Að fara í skólann á morgnana, leggja sig seinnipartinn og taka svo lærdóminn á kvöldin. Þetta eru sko almennileg lífsgæði sem fást ekki svo auðveldlega seinna á lífsleiðinni!

Verslunarstjórnun 10 ára

Laugardaginn 7. júní útskrifuðust átta nemendur  úr diplómanámi í verslunarstjórnun. Þessi dagur markaði þau tímamót að 10 ár eru liðin frá því fyrsti hópurinn útskrifaðist úr námi í verslunarstjórnun við Háskólann á Bifröst.  Námið hefur þróast og eflst í samvinnu við hagsmunaaðila í verslun og þjónustu á liðnum áratug og mikið lagt upp úr fagmennsku og þjálfun á vinnustað.Í dag er er óhætt að fullyrða að námið hafi fest sig í sessi og skilað fjöldanum öllum af hæfum verslunarstjórum úti í samfélagið, auk þess sem margir hafa haldið áfram til frekara náms.  Það er hugur stjórnenda skólans að efla enn frekar nám í verslun og þjónustu í nánu samstarfi við atvinnulífið en nú hafa 178 nemendur hafa lokið námi í verslunarstjórn við skólann.

Verðlaun veitt fyrir framúrskarandi námsárangur

VR, SVÞ -Samtök verslunar og þjónustu, Kaupmannasamtök Íslands og  Starfsmenntasjóður verslunar og skrifstofufólks gáfu vegleg verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur en verðlaunin hlaut Baldvina Karen Gísladóttir.  Háskólinn á Bifröst óskar henni ásamt öllum nemendum til hamingju með áfangann.

Kennsluaðferðirnar á Bifröst frábær undirbúningur.

Georg Brynjarsson er útskrifaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Bifröst. Hann starfar núna sem hagfræðingur BHM og er nýbúinn að semja við ríkið um nýja kjarasmninga. Okkur langaði að vita meira um hans starf, hvernig það kom til og tók Georg tali.

Af hverju valdir þú Háskólann á Bifröst?

Ég held að það hafi legið tvær ástæður að baki því. Annarsvegar vegna þess að þar var boðið uppá nám við frumgreinadeild, sem nú heitir Háskólagátt, og hinsvegar vegna þess að umhverfið heillaði mig. Mér fannst sem það hlyti að vera vænlegt til árangurs að stunda nám fjarri skarkala höfuðborgarinnar, að búa í háskólaþorpi þar sem allir væru samstilltir í náminu. Skólinn, námsaðferðirnar og staðsetningin, allt heillaði þetta mig strax.
Hvað starfar þú í dag og hvernig kom það til?
Ég starfaði áður tímabundið í Utanríkisráðuneytinu við aðildarviðræður Íslands við ESB og þegar því verkefni lauk fór ég að líta í kringum mig. Um þessar mundir er eitt ár síðan ég tók við stöðu hagfræðings BHM – heildarsamtaka háskólamenntaðra á vinnumarkaði. Ég er verkefnastjóri kjara- og réttindanefndar BHM auk þess að sinna haggreiningum og fylgjast með framvindu efnahagsmála. Mér fannst þetta strax áhugavert enda var um að ræða nýja stöðu og mitt verkefni hefur verið að byggja upp skrifstofu hagfræðings BHM frá grunni.

Hvernig hefur viðskiptafræðinámið frá Bifröst nýst þér í núverandi starfi?

Allt mitt nám hefur nýst mér býsna vel á vinnumarkaðnum. Að loknu námi við Háskólann á Bifröst lauk ég meistaranámi í hagfræði við Syddansk Universitet. Ég fór tvisvar í skiptinám meðan ég var á Bifröst, fyrst var ég skiptinemi við University of California UCSD og síðan við CBS í Kaupmannahöfn. Þetta reyndist góður grunnur fyrir framhaldsnámið og fyrir starfsnám sem ég tók í kjölfarið við hagdeild EFTA í Lúxemborg. Ég segi þó hikstalaust að í daglegu starfi er það námið frá Bifröst sem nýtist mér best. Á hverjum einasta degi sé ég hvernig kennsluaðferðirnar á Bifröst, hópavinna og raunveruleg verkefni úr atvinnulífinu, undirbjuggu mig vel fyrir krefjandi störf á vinnumarkaði.

Hvað er eftirminnilegast frá námsárunum á Bifröst?

Árin mín á Bifröst voru sannarlega bestu ár ævi minnar, að minnsta kosti hingað til. Eftir því sem tíminn líður verða ekki endilega einstaka atburðir eftirminnilegasti heldur tímabilið í heild. Staðurinn hefur jákvæð áhrif á fólk, umhverfið og samfélagið er í góðu jafnvægi og það skilar því vel frá sér.

Eitthvað að lokum?

Ég fylgist vel með starfsemi Háskólans á Bifröst og mér er annt um þennan stað. Ég vona að þær breytingar sem framundan kunna að vera í háskólasamfélaginu á Íslandi hafi jákvæð áhrif á starfsemina í Norðurárdalnum. Það ætti að vera sameiginlegt markmið þeirra sem hafa farið í gegnum nám þar að tryggja að aðrir fái notið þessarar góðu reynslu áfram.

Sýning um íslenskt atvinnulíf opnuð á Bifröst

Laugardaginn 7. júní var sýning um íslenskt atvinnulíf opnuð á Bifröst með pompi og prakt að viðstöddum fjölda gesta. Sýningin fjallar um íslensk fyrirtæki og er innsýn í verðmætasköpun þeirra og og hvernig starfsmenn sjá framtíð þeirra fyrir sér. Á sýningunni eru ýmis fyrirtæki á öllum sviðum atvinnulífsins. Á sýningunni eru stór myndræn veggspjöld ásamt myndböndum og ljósmyndasýningu. Það er Háskólinn á Bifröst sem á veg og vanda að sýningunni en María Ólafsdóttir er sýningarstjóri og hefur leitt vinnuna ásamt Vilhjálmi Egilssyni rektor. Sýningin verður opin í allt sumar frá 10-18 á Bifröst og er aðgangur ókeypis.