Facebook icon Twitter icon Forward icon

Síðasta útskrift Bryndísar

Laugardaginn 1. júní útskrifaði Bryndís Hlöðversdóttir rektor við Háskólann á Bifröst í síðasta sinn, rúmlega 60 nemendur úr símenntun, grunn- og meistaranámi.  Nýr rektor, Vilhjálmur Egilsson tekur við skólanum formlega 1. júlí í sumar. Að venju voru veitt útskriftarverðlaun og einnig voru afburðanemendur sem komust á Bifrastarlistann verðlaunaðir.

Í ræðu Bryndísar kom fram hörð gagnrýni á skólakerfið í heild og viðleitni til að sníða alla í sama stakk á kostnað fjölbreytni og gerjunar. Hún sagði einnig að mikilvægt væri að færa íslenskt menntakerfi í átt að nútímanum og aðlaga það þörfum atvinnulífsins. Of margir stundi ekki nám við sitt hæfi eða í takt við það sem þörfin kallar á.

Skólakerfið hefði brugðist mörgum en eitt helsta verkefni þess væri auk þess að efla þekkingu einstaklinganna, að hjálpa þeim að finna köllun sína og styrkja þá til að verða virkir og góðir þjóðfélagsþegnar.

Bryndís hvatti stjórnvöld og alla sem í skólakerfinu starfa til að taka höndum saman og leita markvissra aðgerða til að vinna bug á vandanum. Hún talaði einnig um mikilvægi þess að skólakerfið væri fjölbreytt og hvernig Bifröst hefur metið nemendur inn t.d. með tilliti til annarskonar bakgrunns. Þeir séu sumir hluti af þessu brottfalli og eftir að hafa farið í gegnum frumgreinadeildina nú Háskólagáttin reynast þeir oft vera bestu nemendurnir á háskólastig. Sjá nánar um útskriftina hér.

Háskólagáttin slær í gegn

Nýtt nám, Háskólagátt, hefst í haust við Háskólann á Bifröst og er þetta nám ætlað þeim sem hyggja á háskólanám en hafa ekki lokið stúdentsprófi. Námið byggir á frumgreinadeild sem áður var starfandi við skólann. Háskólagáttin hefur slegið í gegn svo um munar. Opnað var fyrir umsóknir í mars og vel á þriðja hundrað nemendur hafa sótt um, sem er nær  Mikil aukning frá árinu á undan.Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir er forstöðumaður Háskólagáttarinnar og hún telur helstu skýringuna vera fyrirkomulag námsins sem er verkefnamiðað að mestu leiti. En ekki síst fyrir tilstuðlan þeirrar nýjungar að námið er í boði fyrir alla án skólagjalda bæði fyrir þá sem eru í námi á staðnum og í fjarnámi, en margir velja sér fjarnáms kostinn. ,,Í fjarnáminu geta nemendur einbeitt sér að fáum fögum í einu og unnið að heiman sem er kostur fyrir þá sem hafa ekki möguleika á að flytja á Bifröst.”

,,Háskólagáttin býður fyrst og fremst góðan og traustan undirbúning fyrir háskólanám og kennslu í vönduðum og sjálfstæðum vinnubrögðum” segir Guðrún og bendir á að námið gagnist þeim sem einhverra hluta vegna luku ekki stúdentsprófi en vilja fá nýtt tækifæri til að mennta sig og eiga möguleika á fleiri tækifærum í lífinu. Námið er að fullu sniðið að aðalnámskrá framhaldsskólanna sem á einnig að auðvelda námsmat í aðra skóla.

Umsóknarfrestur í Háskólagátt við Háskólann á Bifröst er til 15. júní nk.

Tilraunaútgáfa af farsímavef fyrir ferðamenn

Margrét Rós Einarsdóttir meistaranemi í alþjóðaviðskiptum  skrifaði lokaverkefni um þróun og arðsemi símavefs fyrir ferðamenn sem ber heitið ,,Shoplocal.is”. Um er að ræða hluta af samstarfsverkefni Tourist Guide for Northern Periphery sem Rannsóknasetur verslunarinnar við Háskólann á Bifröst stendur að. Verkefnið er styrkt af Norðurslóðaáætluninni og er hluti af samstarfsverkefni nokkurra landa á norðurslóðum.

Símavefurinn þjónar þeim tilgangi að ferðamenn geta fundið staði þar sem hægt er að kaupa mat, handverk eða hönnun sem framleitt er á þeim stað sem þeir eru staddir á landinu hverju sinni. Á vefnum, sem meðal annars býður upp á staðsetningakort, er hægt að sjá hvar næsti bóndi eða sölustaður er, ásamt helstu upplýsingum um vörurnar sem í boði eru, opnunartíma og fleira.

Tilraunaútgáfu af vefnum er hægt að skoða á slóðinni www.shoplocal.is

Vel heppnaður opinn dagur

Þann 9. maí síðastliðinn var hinn árlegi Opni dagur Háskólans á Bifröst haldinn. Aldrei hafa fleiri lagt leið sína á Bifröst  en mörg hundruð manns voru mætt til að skoða námsúrvalið sem skólinn hefur upp á að bjóða og aðstöðuna á Bifröst.

Gestir voru á öllum aldri og á meðan sumir hoppuðu klukkustundum saman í hoppukastalanum eða horfðu á leikhópinn Lottu, lágu aðrir í stjörnuskoðunartjaldinu og kynntu sér gang himintunglanna. Enn aðrir ræddu við kennara og núverandi nemendur um menningarstjórnun, viðskiptafræði, háskólagáttina, eða skoðuðu frábæra aðstöðu skólans.

Kvenfélag Stafholtstungna bakaði um sjö hundruð vöfflur ofan í mannskapinn.

Málstofa um Ísland og norðurslóðir

Föstudaginn 24. maí var haldin málstofa um Ísland og norðurslóðir í Háskóla Íslands en fundurinn var á vegum Rannsóknaseturs um norðurslóðir, Háskólans á Bifröst og Norðurslóðanets Íslands. Meginefni fundarins fjallaði um þær áskoranir sem ríki og samfélög á norðurslóðum standa frammi fyrir, svo sem loftslagsbreytingar og öryggismál.

Sagt var frá nýju Norðurslóðaneti á Íslandi en megintilgangurinn með því er að auka sýnileika og skilning á málefnum norðurslóða, sem og starfsemi aðila sem vinna að málefnum norðurslóða á Íslandi.  Heimasíða Norðurslóðanetsins er: www.nordurslodanetid.is