Facebook icon Twitter icon Forward icon

Húsafriðunarsjóður

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki úr húsafriðunarsjóði fyrir árið 2022. Umsóknarfrestur er til 1. desember 2021.

Hér má nálgast umsóknareyðublaðið.

Menningararfskeppni unga fólksins

Ísland tekur þátt í Menningararfskeppni unga fólksins 2021. Keppnin hefur verið haldin tvisvar áður og tók Ísland þátt í bæði skiptin, en hún er nú með aðeins breyttu sniði. Keppnin er hluti af samevrópskri menningararfskeppni sem ber heitið Young Heritage Makers Competition og fer fram á sama tíma víða í Evrópu.
Tilgangur keppninnar er að fá börn og ungmenni á aldrinum 6-17 ára til að skoða þann menningararf sem fyrirfinnst í þeirra nærumhverfi, hvort sem hann er áþreifanlegur eða óáþreifanlegur, og svara spurningunni: „Hver er evrópski menningararfurinn minn?“. Frestur til að senda inn verkefni er til 1. nóvember.
Nánar má lesa um keppnina hér.

Menningarminjadagar Evrópu

Menningarminjadagar Evrópu 2021 voru haldnir á Íslandi vikuna 30. ágúst – 5. september. Minjastofnun þakkar öllum þeim sem tóku þátt í menningarminjadögum Evrópu 2021 kærlega fyrir þeirra þátt í að láta menningarminjadagana verða að veruleika. Á hverju ári er kallað eftir viðburðum á dagskrá þessarar samevrópsku menningarhátíðar og án þátttöku viðburðahaldara og gesta væru engir menningarminjadagar.
Viðburðir í ár voru bæði staðbundnir og stafrænir. Minjastofnun stóð fyrir tveimur stafrænum viðburðum en átta öflugir viðburðahaldarar stóðu fyrir staðbundnum viðburðum á sínum svæðum. Lista yfir þá má nálgast hér.
Þema menningarminjadaganna á næsta ári er sjálfbærni og stefnt er á að halda menningarminjadaga undir þeim merkjum í september 2022. Nú er um að gera að nýta tímann í vetur til að leggja höfuðið í bleyti og koma með tillögur að viðburðum.
Menningarminjadagarnir eru haldnir hátíðlegir víða um Evrópu á haustin og hér má nálgast opinbera heimasíðu og dagskrá menningarminjadaga Evrópu.

Uppfærsla á vefsjá

Nýlega lauk vinnu við uppfærslu á minjavefsjá Minjastofnunar. Húsa- og mannvirkjaþekjan inniheldur nú einnig aldursfriðuð hús/mannvirki, en eldri útgáfan samanstóð eingöngu af friðlýstum húsum og mannvirkjum. Hvað varðar aldursfriðunina, þá nær þekjan fram til ársins 2019, en ætlunin er að hús og mannvirki sem náðu 100 ára aldri á árunum 2020 og 2021 muni bætast við fljótlega. Eins og er eru birtar helstu upplýsingar um húsin/mannvirkin, eins og heiti, staðsetning, byggingarár o.s.frv., en þegar fram líða stundir er ætlunin að setja inn hlekki á ítarefni um hvert hús.
Við uppfærsluna var einnig bætt við þekju sem sýnir staðsetningu leyfisskyldra fornleifarannsókna og inniheldur hún upplýsingar um tegund rannsóknar (vísindarannsókn, framkvæmdarannsókn, björgunarrannsókn), rannsóknaraðferð (könnunarskurðir, opið svæði o.s.frv.), nafn leyfishafa, staðarheiti o.fl. Þekjan nær yfir rannsóknir unnar á árunum 2013-2018, en unnið er að því að bæta við eldri og nýrri rannsóknum. Jafnframt er ætlunin að hægt verði að nálgast ítarefni um hverja rannsókn í gegnum hlekki þegar fram líða stundir.

Hér má sjá minjavefsjána.

Námskeið í gerð húsakannana

Dagana 22. og 23. september var haldið námskeið í gerð húsakannana hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Undirbúningur og kennsla á námskeiðinu var á vegum Guðnýjar Gerðar Gunnarsdóttur, fyrrum minjavarðar Reykjavíkur og nágrennis hjá Minjastofnun Íslands og þar áður borgarminjavarðar í Reykjavík, Guðlaugar Vilbogadóttur, fornleifafræðings og starfsmanns Minjastofnunar, Maríu Gísladóttur arkitekts hjá Minjastofnun, Drífu Kristínar Þrastardóttur, verkefnastjóra húsverndar hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur, og Sólborgar Unu Pálsdóttur, héraðsskjalavarðar í Skagafirði.
Húsakönnun er byggingarlistaleg og menningarsöguleg könnun sem felst í skráningu húsa og mannvirkja og er studd sagnfræðilegum heimildum, vettvangskönnun og mati á varðveislugildi einstakra húsa, húsasamstæða og byggðaheilda. Með húsakönnun er lagður grundvöllur að ákvörðunum sem varða verndun byggðar með það að markmiði að tryggja að þær byggi á faglegum rökum.

Minjastofnun Íslands hefur gefið út skráningarstaðal og leiðbeiningar um skráningu húsa og mannvirkja og gerð húsakannana með það að markmiði að samræma skráningu húsa og mannvirkja á landsvísu. Námskeið í gerð húsakannana eru enn einn liður í þeirri samræmingu og eru ætluð þeim sem vilja öðlast þekkingu og færni til þess að taka að sér skráningu húsa og mannvirkja og gerð húsakannana, svo sem arkitekta, sagnfræðinga, þjóðfræðinga, listfræðinga og fleiri.
Námskeiðið hefur nú verið haldið tvisvar sinnum og hefur gengið vel í bæði skiptin, verið vel sótt af fjölbreyttum hópi fólks með ólíkan bakgrunn. Stefnt er að því að halda sams konar námskeið í þriðja sinn á næsta ári, 2022.

Ferð Minjastofnunar í Mývatnssveit

Dagana 20.-23. september fór þorri starfsmanna Minjastofnunar í vinnuferð norður í Mývatnssveit. Gist var á Hofsstöðum og voru dagarnir notaðir til fundahalda og til að fara í skoðunarferðir, auk þess sem ýmsir staðir voru skoðaðir á akstrinum norður og suður aftur. Sá hluti starfsmannanna sem ekki komst með í ferðina sat sameiginlega fundi í gegnum Teams. Fundirnir fjölluðu m.a. um stefnumótunarvinnu og ferla og verkefni innan stofnunarinnar.

Gildi og nýting minjastaða - ESPON verkefni

Gildi og nýting minjastaða er rannsóknarverkefni sem hófst á vormánuðum. Meginmarkmiðið er að rannsaka hvernig heimamenn sjá og meta minjastaði í sínu nánasta umhverfi, en svæðið sem rannsóknin nær yfir er Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit. Þar er sérstök áhersla lögð á Hofsstaði í Mývatnssveit. Rannsóknin er tvíþætt og verður hagrænt gildi minjastaða skoðað annars vegar og samfélagslegt gildi hins vegar.  
Lög verður áhersla á að öðlast innsýn í samfélagslegt gildi minjastaða fyrir heimamenn og kanna hvort, og þá hvernig, minjastaðir geti gagnast íbúum svæðisins, ásamt þeim mögulegu ávinningum sem hlotist hafa af þeim fornleifarannsóknum sem farið hafa fram á svæðinu í gegnum árin. Í hagfræði er unnið út frá því að allt sem auki velferð mannsins sé verðmætt. Velferðaráhrifin stafa ýmist af beinni eða óbeinni notkun og verður þetta skoðað út frá viðhorfi heimamanna til nýtingar og tilvistar minjastaða í þeirra nærumhverfi. Einnig verður skoðað hversu hátt þeir meta minjastaði í samanburði við önnur verkefni í samfélaginu. Vonast er til þess að með þessu rannsóknarverkefni megi þróa aðferðafræði til svipaðrar greiningar á öðrum landshlutum á Íslandi.
Rannsóknin skiptist í þrjá hluta: viðtöl við hagaðila, rýnihópsviðtöl við heimamenn og spurningalista sem sendur verður út á netinu til íbúa svæðisins. Verkefnið er á vegum Minjastofnunar og er styrkt af evrópska styrktar sjóðnum ESPON (https://www.espon.eu/). Rannsóknarhlutinn er unnin af Hagfræðistofnun Íslands og Rannsóknamiðstöð ferðamála. Gagnasöfnun fer fram sumar og haust 2021 og verkefninu lýkur með skýrslum um niðurstöður rannsóknarinnar í árslok 2021. Tengiliðir Minjastofnunar eru Sólrún Inga Traustadóttir og Sædís Gunnarsdóttir.

Reykjanes

Rannsóknum tengdum eldgosinu á Reykjanesi var haldið áfram í sumar. Var farið í fjölda skráningarferða, auk þess sem gerðar voru könnunarrannsóknir í formi kjarnaborana og könnunarskurða á völdum stöðum. Einnig voru gerðar þrívíddarmælingar á nokkrum friðlýstum  minjastöðum í samstarfi við NIKU (Norsk institutt for kulturminneforskning). Framvinduskýrsla um rannsóknirnar er væntanleg í desember.

Litaspjald sögunnar

Gefið hefur verið út leiðbeiningarit með dæmum um vel heppnaða litasetningu húsa sem samræmist aldri þeirra og gerð. Ritið er samstarfsverkefni framtakssamra einstaklinga og hönnuða sem hlutu fyrir því styrk úr Húsafriðunarsjóði og fengu Minjastofnun, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Húsverndarstofu í lið með sér við vinnslu þess.
Hér má nálgast nánari upplýsingar og litaspjaldið í PFD útgáfu.

29. október 2021

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir