|
Ný vefsjá Minjastofnunar
Ný vefsjá Minjastofnunar Íslands, unnin í samstarfi við Landmælingar Íslands, hefur verið tekin í gagnið. Vinna við vefsjána hefur staðið yfir undanfarna mánuði. Vefsjáin hefur svipað yfirbragð og fyrri vefsjá en þó eru ýmsar nýjungar nú kynntar til sögunnar. Samhliða gerð þessarar nýju vefsjár hefur aðgengi að landfræðilegum gögnum Minjastofnunar verið aukið til muna en í samvinnu við Landmælingar Íslands hafa skráningargögn Minjastofnunar nú verið gerð aðgengileg í gegnum WMS og WFS tengingar. Vonast stofnunin til þess að vefsjáin mælist vel fyrir hjá notendum hennar.
Nánar má lesa um nýju vefsjána, og skoða hana, hér.
Minjastofnun minnir á vefsíðu þar sem hægt er að lesa og hlaða niður rafrænum eintökum af þeim fornleifaskráningarskýrslum sem stofnuninni hafa borist. Á heimasíðu Minjastofnunar má enn fremur nálgast yfirlit yfir húsakannanir- og skráningar sem stofnuninni hafa borist.
|
|
Úthlutun úr húsafriðunarsjóði
Tilkynnt var um úthlutun úr húsafriðunarsjóði þann 22. mars sl. Fjöldi umsókna var að þessu sinni 285, en veittir voru 242 styrkir. Úthlutað var 300.000.000 kr., en sótt var um ríflega 1,2 milljarð króna. Lista yfir styrkt verkefni má finna hér.
|
|
Úthlutun úr fornminjasjóði
Tilkynnt var um úthlutun úr fornminjasjóði þann 23. mars sl. Að þessu sinni bárust 78 umsóknir og var sótt um samtals 211 milljónir króna. Styrkjum var úthlutað til 33 verkefna, samtals 66.750.000 kr. Lista yfir styrkt verkefni má finna hér.
|
|
Úthlutun af Landsáætlun
Þann 23. mars sl. tilkynnti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, um úthlutun fjármuna af Landsáætlun til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum. Minjastofnun Íslands er með níu verkefni á áætlun 2022-2024, en auk þess eru eldri verkefni enn í vinnslu hjá stofnuninni. Verkefnin eru ólík að stærð og gerð, allt frá skiltagerð yfir í endurbætur á yfirbyggingu Stangar í Þjórsárdal. Að auki er nokkur fjöldi verkefna hjá öðrum stofnunum sem unnin verða í samstarfi við Minjastofnun, t.a.m. innan vébanda þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og friðlandsins á Hornströndum.
Nánar má lesa um verkefni á landsáætlun 2022-2024 hér.
|
|
Vinnuferð minjavarða
Dagana 29. mars til 1. apríl eru minjaverðir Minjastofnunar Íslands saman í vinnuferð á Hofsstöðum í Mývatnssveit. Tilgangur ferðarinnar er að fara yfir ýmis sameiginleg mál og samþætta verklag. Minjaverðir hafa lítið hist síðustu tvö ár vegna Covid takmarkana, enda staðsettir vítt og breitt um landið, og var því kærkomið tækifæri að fara í sameiginlega vinnuferð.
|
|
Yfirlit yfir fornleifarannsóknir árið 2020 sem höfðu jarðrask í för með sér
Út er komið yfirlit yfir fornleifarannsóknir sem höfðu jarðrask í för með sér árið 2020. Gefið er út yfirlit fyrir hvert ár þar sem birtar eru upplýsingar úr eyðublöðum sem rannsakendur skila að lokinni vettvangsvinnu við fornleifauppgrefti og borkjarnarannsóknir. Upplýsingarnar gefa innsýn inn í þær rannsóknir sem fram fóru: umfang þeirra, staðsetningu og markmið.
Yfirlit áranna 2013-2020 má finna hér.
|
|
Umsóknir um starf lögfræðings
Umsóknarfrestur um starf lögfræðings á Minjastofnun Íslands rann út sl. mánudag, 28. mars. Alls bárust 23 umsóknir um starfið. Ákvörðun um ráðningu í starfið verður tekin fljótlega.
|
|
Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir
Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir
31. mars 2022
|
|
|
|
|