Facebook icon Twitter icon Forward icon

Nýtt ráðuneyti og heimsókn ráðherra

Þann 1. febrúar 2022 fluttist Minjastofnun Íslands yfir í nýtt ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Ljóst er að flutningur í nýtt ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftlagsmála er eðlilegur þegar horft er til helstu verkefna stofnunarinnar.
Þann 9. mars sl. fékk Minjastofnun Íslands svo góðan gest þegar ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála kom í heimsókn á aðalskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík, ásamt fríðu föruneyti. Gestirnir gengu um húsið í fylgd forstöðumanns Minjastofnunar og að lokum var staldrað við í kjallaranum þar sem starfsfólk stofnunarinnar fræddi gestina um fjölbreytt verkefni stofnunarinnar, minjar í hættu, húsvernd, fornleifaskráningu og margt fleira. Viðstaddir áttu gott spjall um málaflokkinn og má með sanni segja að Minjastofnun horfi björtum augum til framtíðar í nýju umhverfi í nýju ráðuneyti.

Starfsmannamál

Ómar Valur Jónasson verkefnastjóri fluttist búferlum norður á Akureyri í febrúar auk þess sem hann hóf fæðingarorlof í byrjun mars. Ómar kemur aftur til vinnu undir lok ágúst.


Um miðjan marsmánuð fór María Gísladóttir verkefnastjóri í fæðingarorlof. María kemur aftur til starfa að ári. Alma Sigurðardóttir arkitekt hefur verið ráðin til að leysa Maríu af.

Staða lögfræðings laus til umsóknar

Minjastofnun Íslands hefur auglýst lausa til umsóknar stöðu lögfræðings við stofnunina. Umsóknarfestur er til og með 28. mars, sjá nánar hér.

Úthlutanir úr sjóðum

Úthlutanir munu liggja fyrir úr húsafriðunarsjóði og fornminjasjóði innan skamms.

Þrívíddarmódel af friðlýstum fornleifum á Reykjanesi

Í kjölfar jarðhræringa á Reykjanesskaga á síðasta ári fóru starfsmenn Minjastofnunar og NIKU (Norsk institutt for kulturminneforskning) á þrjá friðlýsta minjastaði með það að markmiði að búa til þrívíddarlíkön af stöðunum. Þessir staðir voru Húshólmi og Selatangar, við suðurströndina, og útilegumannabyrgin í Sundvörðuhrauni í grennd við Eldvörp. Verkefnið var frumraun Minjastofnunar í gerð þrívíddarlíkana en í framtíðinni er stefnt að því að vinna fleiri slík líkön af menningarminjum af ýmsu tagi. Samvinnuverkefnið með NIKU reyndist afar farsælt og voru gerð alls 10 líkön sem hægt er að skoða hér.

Yfirlýsing forstjóra minjastofnana Evrópu vegna innrásar Rússa í Úkraínu

Vegna innrásar Rússa í Úkraínu hafa forstjórar minjastofnana Evrópu (EHHF) sent frá sér yfirlýsingu þar sem þess er krafist að Rússland virði mannréttindi og einnig alþjóðlegar samþykktir um vernd menningarminja á stríðsátakasvæðum: Genfarsamningana og Haag samþykktina. Sjá nánar hér.

22. mars 2022

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir