Þann 1. febrúar 2022 fluttist Minjastofnun Íslands yfir í nýtt ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Ljóst er að flutningur í nýtt ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftlagsmála er eðlilegur þegar horft er til helstu verkefna stofnunarinnar.
Þann 9. mars sl. fékk Minjastofnun Íslands svo góðan gest þegar ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála kom í heimsókn á aðalskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík, ásamt fríðu föruneyti. Gestirnir gengu um húsið í fylgd forstöðumanns Minjastofnunar og að lokum var staldrað við í kjallaranum þar sem starfsfólk stofnunarinnar fræddi gestina um fjölbreytt verkefni stofnunarinnar, minjar í hættu, húsvernd, fornleifaskráningu og margt fleira. Viðstaddir áttu gott spjall um málaflokkinn og má með sanni segja að Minjastofnun horfi björtum augum til framtíðar í nýju umhverfi í nýju ráðuneyti.