NHHF - Fulltrúar Minjastofnunar tóku þátt í ársfundi forstöðumanna minjastofnana á Norðurlöndunum (Nordic Heritage Heads Forum) dagana 24. - 25. ágúst. Fundurinn var haldinn í heimsminjastaðnum Röros í Þrændalögum í Noregi, fyrrum koparnámubæ þar sem vinnsla lagðist af á áttunda áratug 20. aldar . Auk formlegs fundar um málefni minjavörslunnar á Norðurlöndunum var farið í skoðunarferðir í Röros. Endurgerð kirkja og húsin í bænum skoðuð, koparvinnslan og sýningar um hana. Í Röros er unnið að þjálfun iðnaðarmanna í gömlu handverki og fékk hópurinn innsýn í þjálfun trésmiða, steinsmiða, járnsmiða og málara.
Það er ekki venja að forstöðumannafundurinn gefi út sameiginlega yfirlýsingu varðandi þau mál sem eru efst á baugi heldur er markmið fundanna að ræða málin og veita hverju öðru stuðning og upplýsingar eftir þörfum. Á fundunum eru teknar ákvarðanir um sameiginleg verkefni og jafnframt um þróun minjavörslu.
Tveir fulltrúar frá pólsku minjavörslunni komu í heimsókn til Minjastofnunar í júní, þær Agnieszka Makowska og Agnieszka Oniszczuk. Dagskrá dvalarinnar spannaði þrjá daga og voru m.a. farnar kynnisferðir á ýmsa minjastaði á Reykjanesi og Suðurlandi auk þess sem báðir aðilar kynntu starfsemi sinna stofnana. Góðar og gagnlegar umræður spunnust einnig um verkefni, áskoranir og stöðu mála í löndunum. Þökkum við þeim Makowska og Oniszczuk kærlega fyrir komuna.