Facebook icon Twitter icon Forward icon

Kynnisferð til Rómar

Dagana 31. ágúst - 4. september fór þorri starfsfólks Minjastofnunar í kynnisferð til Rómar á Ítalíu. Tilgangur slíkra kynnisferða er að fræðast um starfsemi fagstofnana og annarra tengdra aðila og kynnast áskorunum, lausnum og verkefnum sem geta nýst í starfi stofnunarinnar. Gengið var um götur Rómar undir leiðsögn sem lagði áherslu á sögu og minjar í umhverfinu, rannsóknir á þeim og miðlun. Höfuðstöðvar ICCROM voru heimsóttar og gengið um Herculaneum undir leiðsögn sérfræðings í varðveisluteymi minjastaðarins. Nánar má lesa um ferðina hér.

Erlent samstarf

NHHF - Fulltrúar Minjastofnunar tóku þátt í ársfundi forstöðumanna minjastofnana á Norðurlöndunum (Nordic Heritage Heads Forum) dagana 24. - 25. ágúst. Fundurinn var haldinn í heimsminjastaðnum Röros í Þrændalögum í Noregi, fyrrum koparnámubæ þar sem vinnsla lagðist af á áttunda áratug 20. aldar . Auk formlegs fundar um málefni minjavörslunnar á Norðurlöndunum var farið í skoðunarferðir í Röros. Endurgerð kirkja og húsin í bænum skoðuð, koparvinnslan og sýningar um hana. Í Röros er unnið að þjálfun iðnaðarmanna í gömlu handverki og fékk hópurinn innsýn í þjálfun trésmiða, steinsmiða, járnsmiða og málara.

Það er ekki venja að forstöðumannafundurinn gefi út sameiginlega yfirlýsingu varðandi þau mál sem eru efst á baugi heldur er markmið fundanna að ræða málin og veita hverju öðru stuðning og upplýsingar eftir þörfum. Á fundunum eru teknar ákvarðanir um sameiginleg verkefni og jafnframt um þróun minjavörslu.

 

Tveir fulltrúar frá pólsku minjavörslunni komu í heimsókn til Minjastofnunar í júní, þær Agnieszka Makowska og Agnieszka Oniszczuk. Dagskrá dvalarinnar spannaði þrjá daga og voru m.a. farnar kynnisferðir á ýmsa minjastaði á Reykjanesi og Suðurlandi auk þess sem báðir aðilar kynntu starfsemi sinna stofnana. Góðar og gagnlegar umræður spunnust einnig um verkefni, áskoranir og stöðu mála í löndunum. Þökkum við þeim Makowska og Oniszczuk kærlega fyrir komuna.

Stofnanaendurskoðun

Í júní tilkynnti Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- orku- og loftlagsráherra að hann hygðist vinna að hagræðingu og stofnanaeflingu innan ráðuneytisins. Stefnt yrði að aukinni samvinnu stofnana og í sumum tilfellum sameiningu. Vinnan hófst þegar í sumar og er gert ráð fyrir að breytt fyrirkomulag verði kynnt fyrir jól.

Innviðauppbygging

Minjastofnun hefur á síðust árum fengið styrk til margar verkefna á Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Á hverju ári lýkur verkefnum og önnur koma í staðinn, en markmið okkar nú er að vinna hörðum höndum að því að ljúka verkefnum frá árunum 2018-2020 sem vegna óviðráðanlegra ástæðna hefur ekki verið lokið við, og eru mörg þeirra á allra síðustu metrunum. Mikilvæg verkefni sem lokið hefur verið við upp á síðakastið á friðlýstum minjastöðum eru endurhleðslur veggja og uppsetning skiltis við fjárborg í Mjóafirði á Austfjörðum, lagfæring umhverfis og uppsetning skiltis við Krosslaug í Lundarreykjadal, deiliskipulag fyrir Gásir í Eyjafirði, girðingauppsetning til varnar þingstaðnum á Hegranesi í Skagafirði og svo mætti áfram telja.

PHIVE ráðstefna

Þann 16. júní var haldin lokaráðstefna í PHIVE verkefninu sem Minjastofnun hefur verið þátttakandi í síðustu ár. Ráðstefnan, Einu sinni var… í framtíðinni – stefnumót um stafræna miðlun og varðveislu menningararfs, var haldin í Veröld, húsi Vigdísar, en einnig á netinu og flutti fjöldi innlendra og erlendra fræðimanna þar erindi. Starfsmenn Minjastofnunar tóku virkan þátt í dagskrá ráðstefnunnar, en Sólrún Inga Traustadóttir, verkefnastjóri, hélt erindi um vinnslu þrívíddarlíkana af minjastöðum og þau tækifæri sem felast fyrir minjavörsluna í notkun slíkrar tækni. Einnig var Oddgeir Isaksen, verkefnastjóri, með kynningu á smáforritinu Muninn í kynningarhorni á ráðstefnunni. Hér er hægt að nálgast upptökur af öllum málstofum ráðstefnunnar.
Hér er hægt að nálgast smáforritið Muninn.

11. október 2022

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðaraðili: Kristín Huld Sigurðardóttir