Facebook icon Twitter icon Forward icon

Vorfundur Minjastofnunar

Fimmtudaginn 12. maí var vorfundur Minjastofnunar Íslands haldinn í Hannesarholti. Fundurinn bar heitið „Friðlýsingar: Tækifæri og áskoranir“ og fluttu fimm fyrirlesarar þar erindi tengd friðlýsingum, auk þess sem  umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, opnaði og ávarpaði fundinn. Á fundinum notaðist stofnunin við ýmsar tæknilausnir í fyrsta sinn, en Duncan McCallum ávarpaði fundinn frá Bretlandi í gegnum Zoom, ávarp ráðherra var tekið upp fyrir fundinn og spilað fyrir fundargesti og fundurinn var sendur út í beinu streymi á Youtube síðu Minjastofnunar.


Upptöku af fundinum má nálgast hér

Starfsmannamál

Ráðinn hefur verið lögfræðingur til starfa við stofnunina, Gísli Óskarsson. Gísli starfað áður hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og býr að fjölþættri reynslu sem mun nýtast vel í starfi hans hjá Minjastofnun.


Nú er sumarleyfistíminn genginn í garð og því má gera ráð fyrir að hluti starfsmanna sé í leyfi hverju sinni.

Viljayfirlýsing Minjastofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs

Þann 30. maí sl. undirrituðu forstöðumenn Minjastofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs viljayfirlýsingu um aukna samvinnu stofnananna með það að markmiði að auka upplýsingamiðlun um menningarminjar innan þjóðgarðsins og stuðla að vernd þeirra. Sérstök áhersla verður, til að byrja með, lögð á verkefni í Skaftafelli og Mývatnssveit.


Viljayfirlýsinguna má sjá hér.

Ný þekja á vefsjá

Ný þekja hefur bæst við vefsjá stofnunarinnar en í henni er að finna upplýsingar um þau svæði þar sem skráning húsa og mannvirkja hefur farið fram. Í gögnunum koma m.a. fram upplýsingar um skrásetjara, titil skýrslu, tilgang skráningar og stofnun/fyrirtæki sem framkvæmdi skráninguna. Sem stendur eru einungis komnar inn upplýsingar fyrir húsakannanir- og skráningar í Reykjavík en unnið er að því að setja inn upplýsingar víðar af landinu. Hægt er að nálgast rafrænt eintak af viðkomandi skýrslu í gegnum vefsjána en samhliða gerð nýju þekjunnar hefur vefsíðan https://husakannanir.minjastofnun.is/ verið opnuð, en þar er einnig hægt að nálgast eintök af skýrslunum.

Opið aðgengi að landfræðilegum gögnum Minjastofnunar

Í samstarfi við Landmælingar Íslands birtir Minjastofnun landfræðileg gögn sín í opnum aðgangi í gegnum WFS og WMS tengingar. Notkun á þessum tengingum krefst ekki niðurhals á gögnunum og tryggt er að allar uppfærslur og viðbætur á gögnum rati beint til notanda. Leiðbeiningar um hvernig setja skuli upp viðeigandi tengingu má finna hér. Beinar slóðir á gögn Minjastofnunar eru: WMS og WFS. Gögnunum er einnig hægt að hlaða niður í gegnum vefsjá stofnunarinnar.

Erlent samstarf

Dagana 18.-20. maí 2022 fóru þrír fulltrúar Minjastofnunar Íslands til Edinborgar á árlega ráðstefnu á vegum European Heritage Heads Forum (EHHF). Á ráðstefnunni var meðal annars rætt um áhrif stríðs Rússlands gegn Úkraínu á menningarminjar og skipulagða eyðileggingu á þeim sem virðist vera stunduð af Rússum. Staðgengill ráðherra menningar- og upplýsingamála í Úkraínu ávarpaði fundinn í gegnum Teams og fór meðal annars yfir þau vandamál sem þjóðin stendur frammi fyrir í dag út frá sjónarhóli minjaverndar. Fulltrúar hvers lands gerðu grein fyrir tiltekinni áskorun sem mæta þurfti vegna Covid-19 faraldursins og hvernig það var gert undir fundarlið sem kallast „Two minutes – two slides“. Þá var þar að auki gerð grein fyrir ársskýrslum lögfræðideildar EHHF annars vegar og efnahagsdeildarinnar hins vegar.

13. júní 2022

Ritstjóri: Ásta Hermannsdóttir

Ábyrgðarmaður: Kristín Huld Sigurðardóttir