Sigríður Margrét Oddsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og mun hún hefja störf í september. Þá mun hún jafnframt láta af störfum sem forstjóri Lyfju.
Sigríður hefur starfað sem framkvæmdastjóri og forstjóri íslenskra fyrirtækja í tæp tuttugu ár. Sigríður hefur auk þess setið í stjórnum margra íslenskra fyrirtækja og hagsmunasamtaka. Sigríður er með B.Sc.
gráðu í Rekstrarfræðum frá Háskólanum á Akureyri og hefur einnig sótt stjórnendanámskeið hjá IESE Business School og Harvard.
„Öflugt atvinnulíf þýðir að lífskjör á Íslandi verða áfram með því besta sem þekkist í heiminum. Það er heiður að vera í forsvari fyrir Samtök atvinnulífsins, vinna með atvinnurekendum og þeim öfluga hópi fólks sem starfar hjá samtökunum. Verkefnin framundan eru brýn, ekki bara fyrir íslenskt atvinnulíf heldur samfélagið allt og ég er
þakklát fyrir að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir.