|
Mánudagsmolar No images? Click here Rætt um gagnsæi og trúverðugleika í loftslagsmálum á Umhverfisdegi atvinnulífsins
Næsta mánudag mætir áhrifafólk í atvinnulífi, stjórnmálum og stjórnsýslu til að ræða gagnsæi og trúverðugleika, meðal annars í umgjörð og skattheimtu, og samkeppnishæfni í ljósi umhverfisstefnu ESB á Umhverfisdegi atvinnulífsins. Meðal þeirra sem sitja fyrir svörum eru fjármála- og efnahagsráðherra og umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra. Umhverfisdagur atvinnulífsins 2025 verður haldinn mánudaginn 24. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica kl. 9:00 - 11:30 undir yfirskriftinni Frá yfirlýsingum til árangurs. Dagurinn er sameiginlegt verkefni SA, SI, SVÞ, SAF, SFS, SFF og Samorku. Auk kraftmikilla umræðna verða Umhverfisverðlaun atvinnulífsins veitt í tíunda sinn. Endanleg ákvörðun um verndartolla ESB tekin á morgun
Fjölmiðlar segja frá því dag, 17. nóvember, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins taki á morgun ákvörðun um verndaraðgerðir vegna kísiljárns og þá hvort Ísland og Noregur verði undanskilin þeim. Íslenskum stjórnvöldum var í síðustu viku tilkynnt að Ísland og Noregur myndu ekki fá undanþágu en að endanleg ákvörðun yrði tekin föstudaginn 14. nóvember. Ákvörðuninni var fyrst frestað til mánudags en nú hefur verið gefið út að niðurstaða í málinu liggi fyrir eftir fund framkvæmdastjórnar ESB á morgun, 18. nóvember. Sjávarútvegsdagurinn: Íslenskur sjávarútvegur í ólgusjó
Sjávarútvegsdagurinnverður haldinn þriðjudaginn 25. nóvember í Norðurljósasal, Hörpu. Sjávarútvegsdagurinn er haldinn í samstarfi Deloitte, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtaka atvinnulífsins. Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, opnar fundinn og erindi verða frá Gunnþóri Ingvasyni, formanni SFS og forstjóra Síldarvinnslunnar, Daníel Jakobssyni, forstjóra Arctic Fish, og Jónasi Gesti Jónassyni hjá Deloitte. Kristín Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri IS Haf fjárfestinga stjórnar fundinum. Fundur hefst með léttum morgunverði kl. 8:00 og dagskrá erinda er frá 8:30-10:00.
Þörf á skýrri tímalínu og heildarsýn varðandi rannsóknir og þróun Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa skilað sameiginlegri umsögn um drög að breytingum á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Leggja samtökin áherslu á að fyrirhugaðar breytingar megi ekki draga úr hvötum til rannsókna og þróunar. Samtökin fagna heildarendurskoðun laganna en vara við óvissu vegna skorts á skýrri tímalínu og heildarsýn. Þau minna á að skattahvatar vegna R&Þ hafi skilað miklum árangri og séu lykilfjárfesting í framtíðarhagvexti. Þá benda þau á að endurskilgreina þurfi hugtakið „fyrirtæki í fjárhagsvanda“ þar sem tap á uppbyggingarskeiði sé eðlilegur hluti nýsköpunar en ekki merki um rekstrarvanda. Þá gera samtökin athugasemdir við nýja reglugerðarheimild sem heimilar ráðherra að setja reglur um mat á menntun, þjálfun og reynslu starfsmanna sem taka þátt í rannsókna- og þróunarverkefnum. Peningastefnunefnd í erfiðri stöðu
„Þessi áföll leiða til þess að umsvif í hagkerfinu dragast saman og Hagstofan gerir ráð fyrir að verðbólgan hjaðni samhliða því. Hún gerir engu að síður ráð fyrir að hún verði um 3,5 prósent á næsta ári. Þessi staða, kólnandi hagkerfi með þrálátri verðbólgu, setur peningastefnunefnd Seðlabankans í afar erfiða stöðu þar sem nefndin hefur verið föst á því að vextir muni ekki lækka nema verðbólga hjaðni frekar í átt að markmiði,“ sagði Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA í viðtali við Morgunblaðið á föstudag. Ráð til að bæta flokkun úrgangs
Vefsíðan Allan hringinn var sett í loftið á dögunum með það að markmiði að aðstoða vinnustaði við að bæta flokkun úrgangs. Síðan veitir starfsfólki og stjórnendum hagnýtar leiðbeiningar um hvernig hægt sé að efla flokkun á vinnustaðnum.
Öflugur útflutningur - Aukin lífsgæði Skýrslan Öflugur útflutningur - Aukin lífsgæði er nú aðgengilega á vef SA. Var skýrslan gefin út í tengslum við Ársfund atvinnulífsins sem haldinn var í Hörpu 2. október síðastliðinn. Útgáfan er ríflega 150 síður og gefur mikilvæga innsýn í stöðu útflutnings og mikilvægis hans fyrir samfélagið í fortíð, nútíð og þá ekki síst framtíð. Við erum alltaf á vaktinni
Samtök atvinnulífsins vinna markvisst að hagsmunagæslu í þágu atvinnulífsins og því að tryggja íslensku atvinnulífi samkeppnishæf starfsskilyrði - landsmönnum öllum til hagsbóta. Mikilvægur liður í þeirri vinnu er að vakta þingmál er varða félagsmenn og atvinnulífið í heild og berst SA jafnframt mikill fjöldi þingmála til umsagnar. Síðustu umsagnir SA má lesa á heimasíðu SA. Gott að vita |