|
Mánudagsmolar No images? Click here
„Stór orð, litlar efndir“ „Ekkert má út af bregða svo markmið um afar hóflega skuldalækkun gangi ekki eftir í fyrstu fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar. Ef frumjöfnuður ríkissjóðs eða hagvöxtur verður lítillega minni en gert er ráð fyrir mun skuldahlutfallið þvert á móti hækka fremur en lækka,“ segir meðal annars í ítarlegri umsögn SA um frumvarp til fjárlaga 2026. Stjórnvöld hvött til að hafna nýju kolefnisgjaldi á sjóflutninga
Sigríður Margrét, framkvæmdastjóri SA, og Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, voru í Morgunútvarpi Rásar 2 síðastliðinn föstudag þar sem þau ræddu sjóflutninga og kolefnisgjaldakerfi Alþjóðasiglingamálastofnunar. Samtök atvinnulífsins og SVÞ vara við því að fyrirhugað alþjóðlegt kolefnisgjaldakerfi fyrir skipaflutninga geti haft alvarleg áhrif á samkeppnishæfni og verðmætasköpun á Íslandi. „Samtök atvinnulífsins og Samtök verslunar og þjónustu leggja áherslu á að Ísland beiti sér fyrir því að þjóðir heimsins endurmeti tillöguna og að unnið verði að undanþágum fyrir ríki sem standa frammi fyrir sértækum áskorunum vegna legu og aðstæðna,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA. „Við hvetjum íslensk stjórnvöld til að hafna að óbreyttu staðfestingu á NZF á næsta fundi umhverfisnefndar IMO sem fram fer í vikunni.“
Enn versna horfur í efnahagslífinu Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem metur aðstæður góðar eða slæmar, fellur töluvert milli mánaða. Þetta er meðal þess sem kemur fram í reglubundinni könnun á stöðu og horfum í efnahagslífinu meðal stærstu fyrirtækja landsins. Könnunin var unnin á tímabilinu 18. ágúst til 15. september af Gallup fyrir Seðlabanka Íslands og Samtök atvinnulífsins. Taktu stjórn - Morgunverðarfundur um netöryggi 28. október
Deloitte og Samtök atvinnulífsins bjóða til morgunverðarfundar í Hörpu þriðjudaginn 28. október kl. 8:30–10:00. Léttur morgunverður verður í boði frá kl. 8:00. Við lifum á tímum þar sem stafrænn heimur fyrirtækja breytist hraðar en nokkru sinni fyrr. Með aukinni tækni og tengingum fylgir líka meiri óvissa – og það er eðlilegt að spyrja sig: Erum við nægilega varin ef eitthvað fer úrskeiðis? Á morgunverðarfundinum „Taktu stjórn til að efla öryggi“ verður fjallað um hvernig stjórnendur geta skapað traustara starfsumhverfi og aukið viðnámsþrótt gagnvart netógnum – án þess að flækja hlutina eða missa sjónar á daglegum rekstri. Kvennafrí 2025
Samtök atvinnulífsins vekja athygli á því að liðin eru 50 ár frá fyrsta kvennaverkfallinu og af því tilefni hafa fjölmörg samtök boðað til útifunda föstudaginn 24. október næstkomandi. SA styðja baráttu gegn mismunun og ofbeldi. Atvinnulífið ber ótvíræðan hag af því að allt starfsfólk fái notið eigin verðleika og hafi jöfn tækifæri til launa, starfa og starfsþróunar óháð kynferði. SA leggja enn fremur áherslu á að þau sem hyggjast taka þátt í 24. október, óski með góðum fyrirvara eftir samtali við sinn atvinnurekanda um hvort og þá með hvaða hætti best er að koma við fjarvistum þennan dag. Engin skylda hvílir á atvinnurekendum að greiða laun í fjarvistum sem þessum. Taktu daginn frá: Umhverfisdagur atvinnulífsins, 24. nóvember
BM Vallá hlutu verðlaunin fyrir Umhverfisfyrirtæki ársins á deginum í fyrra. Umhverfisdagur atvinnulífsins verður haldinn 24. nóvember næstkomandi. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2025. Hvetja samtökin aðildarfyrirtæki til að senda inn tilnefningar eigi síðar en 20. október 2025. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í nóvember, sem haldinn verður á Hilton Reykjavík Nordica. Veitt verða tvenn verðlaun:
Tilnefna þarf fyrirtæki sérstaklega undir hvorn flokk en einnig er heimilt að tilnefna sama fyrirtækið í báða flokka. Dómnefnd velur úr innsendum tilnefningum en til að þær teljist gildar þurfa fyrirtæki að uppfylla sett viðmið og ítarlegur rökstuðningur að fylgja með. Aðeins skráð aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þeirra geta hlotið tilnefningu. Formaður SA ræddi stöðu og horfur í efnahagslífinu í Silfrinu
Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, var í Silfrinu á RÚV ásamt Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, og Einari Frey Elínarsyni, sveitarstjóra í Vík. Meðal þess sem var til umræðu var nýafstaðinn Ársfundur atvinnulífsins, horfur í íslensku efnahagslífi og staða á vinnumarkaði. Við erum alltaf á vaktinni
Samtök atvinnulífsins vinna markvisst að hagsmunagæslu í þágu atvinnulífsins og því að tryggja íslensku atvinnulífi samkeppnishæf starfsskilyrði - landsmönnum öllum til hagsbóta. Mikilvægur liður í þeirri vinnu er að vakta þingmál er varða félagsmenn og atvinnulífið í heild og berst SA jafnframt mikill fjöldi þingmála til umsagnar. Síðustu umsagnir SA má lesa á heimasíðu SA. Gott að vita |