No images? Click here

 

Hátíðarfréttabréf SFF

Gleðilega hátíð!

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu óska félagsmönnum og landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári, og þakka fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða.

Í þessu fréttabréfi er stiklað á stóru um starfsemi samtakanna á árinu 2025. 

Hvernig mun fjármálaþjónusta framtíðarinnar líta út?

Í janúar stóðu SFF og Fjártækniklasinn fyrir ráðstefnu í Hörpu, þar sem fólk úr ólíkum áttum rýndi í framtíð fjártækni hér á landi, út frá þróun og tækifærum í greininni.

Yfir 400 manns sóttu ráðstefnuna og hlustuðu á áhugaverð erindi og pallborðsumræður, þar sem dregin var upp mynd af því hvernig fjármálaþjónusta framtíðarinnar kemur til með að líta út.

Nánar um fjármálaþjónustu framtíðarinnar

Stjórnarformannaskipti á aðalfundi SFF

Á aðalfundi SFF í apríl var Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, kjörinn formaður stjórnar samtakanna. Hann tók við hlutverkinu af Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, sem hafði gegnt formennsku í tvö ár. Benedikt situr áfram í stjórn SFF.

Þá var Þorleifur Stefán Björnsson, framkvæmdastjóri T-plús, einnig kjörinn nýr inn í stjórnina en aðrir stjórnarmenn eru Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, og Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaganna.

Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, og Stefán Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri Arctica Finance, sitja í varastjórn.

Nánar hér

SFF dagurinn 2025: Breyttur heimur

SFF dagurinn 2025 fór fram miðvikudaginn 9. apríl á Grand Hótel Reykjavík, undir yfirskriftinni Breyttur heimur.

Hvert er hlutverk fjármálageirans á tímum vaxandi óróleika í alþjóðamálum? Hvaða afleiðingar mun þessi óróleiki hafa á fjármálastarfsemi sem er á sama tíma að ganga í gegnum fjártæknibyltingu? Hvert stefnir Evrópa í þessum efnum og hvaða þýðingu hefur það fyrir Ísland?

Þetta var á meðal spurninga sem leitast var við að svara í erindum og pallborðsumræðum á SFF deginum, auk þess sem Viðskiptablaðið gaf út veglegt sérblað í tilefni dagsins.

Nánar um SFF daginn

Góður árangur Íslands í Evrópukeppni í fjármálalæsi

Tinna Hjaltadóttir og Steingrímur Árni Jónsson, úr Grunnskóla Fjallabyggðar, voru fulltrúar Íslands í Evrópukeppni í fjármálalæsi sem Evrópsku bankasamtökin héldu í Brussel í maí.

Ísland hafnaði í öðru sæti af Norðurlöndunum á eftir Svíþjóð og voru í miðjunni af þeim 30 löndum sem tóku þátt. Sigurvegarar keppninnar í ár var lið Ítalíu.

Yfir 73 þúsund nemendur í um þrjú þúsund grunnskólum í 30 löndum Evrópu tóku þátt í undankeppnum í heimalöndum sínum, og þar af hátt í tvö þúsund nemendur í 60 skólum hér á landi.

Grunnskóli Fjallabyggðar var hlutskarpastur í Fjármálaleikunum hér heima. Tinna og Steingrímur voru því fulltrúar Íslands í Evrópukeppninni, og voru landi og þjóð til sóma.

Nánar hér

Áhættustýringardagur SFF

Áhættustýringardagur SFF fór fram fyrir fullum sal á Grand Hótel í maí.

Fjölbreyttir fyrirlestrar voru á ráðstefnunni þar sem rætt var um ýmsar áskoranir tengdar áhættustýringu frá ólíkum hliðum, til að mynda tækifæri sem felast í nýtingu gervigreindar, stöðu heimsmálanna og áskoranir tengdum umfangsmiklu regluverki á fjármálamörkuðum.

Nánar um Áhættustýringardaginn

Endurskoðun laga um brunatryggingar boðuð á ráðstefnu um brunavarnir

Ráðstefnan Brunavarnir og öryggi til framtíðar var haldin á vegum Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Samtaka iðnaðarins og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í september. Tilefnið var að um fimm ár voru liðin frá mannskæðasta bruna þessarar aldar hér á landi, brunanum á Bræðraborgarstíg. 

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, og einn ræðumanna sagði í viðtölum í kjölfar ráðstefnunnar að tímabært væri að ráðast í endurskoðun laga um brunatryggingar. Í ávarpi sínu á ráðstefnunni benti Daði á að regluverkið í kringum brunatryggingar væri orðið gamalt og mikilvægt sé að bæta fyrirkomulagið þannig að það nýtist líka til þess að tryggja öryggi fólks. 

Nánar um ráðstefnuna

Heimsókn sendiráðunauta ESB-ríkja

Í október tóku SFF á móti 40 sendiráðunautum ríkja ESB á sviði fjármálaþjónustu. Hópurinn var kominn hingað til lands til þess að kynnast banka- og lífeyriskerfinu og fékk jafnframt fræðslu um EES-samninginn.

Á morgunfundi kynntu fulltrúar SFF og aðildarfélaga starfsemi fjármálamarkaða hérlendis, auk helstu staðreynda og verkefna innan íslenska fjármálakerfisins, þar á meðal fjármálalæsi.

SFF og fulltrúar á vegum samtakanna ræddu lagalegar áskoranir á Íslandi og í Evrópu, mikilvægi einföldunar regluverks og að tillit væri tekið til smæðar Íslands til þess að gæta að samkeppnishæfni. Einnig var fjallað um áhrif lífeyrissjóða á íslenska hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði.

Nánar um heimsóknina

Leiðir til að efla hlutabréfamarkaðinn

SFF og Nasdaq Iceland stóðu í nóvember fyrir ráðstefnunni Leiðir til að efla hlutabréfamarkaðinn í Hörpu. Hátt í 400 manns sóttu ráðstefnuna og á annað þúsund fylgdist með í streymi.

Á ráðstefnunni var leitast við að svara því hvar íslenskur hlutabréfamarkaður stendur í alþjóðlegum samanburði og hvað hægt er að læra af nágrannaþjóðum okkar í þeim efnum.

Fjöldi tillagna um hvernig megi styðja við hlutabréfamarkaðinn kom fram á ráðstefnunni, ýmist í erindum erindum framsögumanna eða pallborðsumræðum. 

Nánar um Leiðir til að efla hlutabréfamarkaðinn

Netsvikaherferð SFF í nóvember

Í nóvember stóðu SFF fyrir umfangsmikilli vitundarvakningu, til þess að vekja athygli fólks á hættunni á netsvikum, sem er sérlega mikil á tilboðsdögum netverslana í nóvember og á aðventunni.

Starfsfólk samtakanna birti fjölda greina á hinum ýmsu miðlum, þar sem athygli var vakin á helstu aðferum netsvikara og góðum leiðum til að verjast svikum. Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF, mætti einnig í útvarpsviðtöl til þess að vekja athygli á hættunni á netsvikum.

Þar að auki útbjuggu SFF sérstakt netsvikapróf, þar sem fólk getur kannað hvar það stendur að vígi gegn mögulegum netsvikum. Fleiri en tvö þúsund hafa tekið prófið, og flestir próftakar virðast vel að sér í helstu tegundum netsvika. Lengi má gott bæta og SFF minna á að svikarar láta ekki aðeins til skarar skríða í nóvember og á aðventunni, og taka sér aldrei frí.

Nánar um netsvik hér

Framfaraskref sem liggur á að koma til framkvæmda

SFF hafa í ár, og raunar allt frá árinu 2016, ítrekað bent á mikilvægi þess að lagabreytingar sem snúa að rafrænum skuldaviðurkenningum verði kláraðar. Fyrsta rafræna skuldabréfinu var þinglýst 2021, en hagræði rafrænna þinglýsinga hefur þó aðeins náðst að hálfu þar sem ferlið nær ekki til lánasamninga sem þarfnast þinglýsinga.

Takist að ljúka þessu máli er um að ræða stórt framfaraskref sem er í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um einföldun regluverks, með samspili stafrænna lausna fyrirtækja í fjármálaþjónustu og stjórnsýslu fyrir íbúa landsins.

Frumvarp um rafrænar skuldaviðurkenningar var lagt fram á Alþingi fyrir nokkrum misserum. SFF hafa lýst sig reiðubúin til að taka taka virkan þátt í aðkomu að því að frumvarpið verði lagt fram að nýju og leggja þannig lóð á vogarskálarnar í átt að einföldu og skilvirku regluverki.

Samtökin hafa ítrekað fjallað um nauðsyn þess að klára málið, meðal annars í umsögn um frumvarp til breytinga á lögum vegna stafrænnar og rafrænnar málsmeðferðar hjá sýslumönnum og dómstólum, og í umsögn um drög að Atvinnustefnu Íslands.

Nánar hér

Fjármálavit og fjármálalæsi í grunnskólum

Starfsemi fræðsluvettvangsins Fjármálavits var með hefðbundnum hætti á árinu sem er að líða. Að venju var góð eftirspurn grunn- og framhaldsskólum eftir kennslubókunum Fyrstu skref-, Snjöll skref - og Farsæl skref í fjármálum eftir Gunnar Baldvinsson. Að meðaltali gefa samtökin um þrjú þúsund eintök á ári, við góðar undirtektir kennara og nemenda.

SFF hafa í gegnum Fjármálavit átt í góðu samstarfi við menntayfirvöld varðandi stöðu fjármálalæsis í aðalnámskrá grunnskóla en breytingar á henni voru kynntar í september. Þar er fjármálalæsi áfram skilgreint innan stærðfræði- og samfélagsgreina en nú með skýrari og markvissari hætti, sem teljast töluverðar framfarir frá því sem áður var. Grunnskólar eru mjög sjálfstæðir þegar kemur að því hvað á að kenna og hversu mikið. Nú þegar fjármálalæsi er betur skilgreint í aðalnámskrá eru meiri líkur á að fagið festist betur í sessi í kennslunni á komandi árum með samræmdum hætti, þar sem áhugi kennara er almennt mikill. 

Nánar um Fjármálavit hér
 

Umsagnir

 

Fjöldi umsagna á árinu sem er að líða

SFF hafa á árinu unnið að og lagt fram fjölda umsagna um fyrirhugaðar breytingar á hinu ýmsa regluverki sem hefur með starfsemi og rekstrarumhverfi fyrirtækja í fjármálaþjónustu að gera.

Umsagnir í samráðsgátt, til eftirlitsaðila og Alþingis eru mikilvægur þáttur í starfi samtakanna. Aðhald gagnvart stjórnvöldum og löggjafanum er mikilvægt og ekki síður að geta komið að faglegum ábendingum með þeirri sérþekkingu sem mikilvægt er að koma að. Ávinningur þessarar faglegu vinnu samtakanna getur verið stór sem smár.

Umsagnir SFF má finna hér
FacebookTwitterInstagramLinkedInWebsite
 
  Share 
  Tweet 
  Share 
  Forward 

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu

Borgartúni 35, 105 Reykjavík

Þessi póstur er sendur á tengiliði Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.

Ef þú vilt ekki fá póst frá SFF getur þú afskráð þig hér að neðan

Persónuverndarstefna SFF

Preferences  |  Unsubscribe